Um Fram á Veginn

Sigga Lára stofnaði Fram á veginn árið 2016 til að halda utan um þau verkefni sem hún var farin að sinna á eigin vegum meðfram föstum störfum. Það er mikilvægt að takast á við hvert augnablik á meðan það líður. En það er líka mikilvægt að geta horft fram á veginn í öllum þeim aðstæðum sem við tökumst á við, og þaðan er nafnið á fyrirtækinu sprottið.

Sigga Lára

“Þú ert það sem þú ert vegna sannfæringar þinnar

(Oprah Winfrey)
Ég hef lengi brunnið fyrir málefnum fjölskyldna, góðum samskiptum og snemmtækri íhlutun, sérstaklega hvað börn og ungmenni varðar. Náms- og starfsferill minn endurspeglar þann áhuga og hef ég því öðlast ýmiss konar þekkingu og reynslu á því sviði. Hér fyrir neðan er yfirlit yfir þá menntun, reynslu og hlutverk sem hafa gert mig að þeim meðferðarðila sem ég er í dag.
Fjölskyldufræðingur
Í fjölskyldumeðferð er unnið með samskipti á milli fjölskyldumeðlima út frá þörfum og óskum hverju sinni. Ég útskrifaðist sem fjölskyldufræðingur frá EHÍ vorið 2018 og hef sinnt fjölskyldumeðferð á eigin vegum, hjá Auðnast og Samskiptasetri Erindis frá því ég var nemi. Ég hef lengst af unnið með samskipti foreldra og unglinga, mál sem eru til meðferðar hjá barnavernd, parsambandið, úrvinnslu í kjölfar framhjáhalds o.fl.
Jógakennari ~ jóganemandi
Ég er jógakennari frá Jóga- og blómadropaskóla Kristbjargar. Þaðan útskrifaðist ég með grunnmenntun (240 klst) 2014, framhaldsnám (560 klst) 2018 og er enn í framhaldsnámi (800 klst). Ég lít þó á mig sem eilífðarnemanda í jógavísindunum og til viðbótar við formlegt jógakennaranám er ég í stöðugu námi og iðkun í jógavísindum undir handleiðslu Kristbjargar Kristmundsdóttur og Sri Swami Ashutosh Muni, enda eru jógavísindin mitt leiðarljós í öllum þeim hlutverkum sem ég sinni. Frá útskrift hef ég leitt jógatíma á eigin vegum og áður hjá Yogasmiðjunni. Áhersla er lögð á að hver og einn ástundi jóga á eigin forsendum, leiti inn á við og tengist hjartanu, losi spennu, andi, styrki líkamann og leitist við að ná valdi á tilfinningum og huga.
Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum
Ég sat í fagráði eineltismála í grunn- og framhaldsskólum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis undir stjórn Menntamálastofnunar, árin 2018 – 2021, en þar skipaði ég sæti formanns í tvö ár. Fagráð eineltismála tekur til meðferðar mál sem aðilar skólasamfélagsins vísa þangað þar sem ekki hefur náðst viðunandi lausn innan skóla eða sveitafélags. Fagráð sinnir líka almennri ráðgjöf og leiðbeiningum.
Ráðgjafi hjá Erindi
Árin 2017-2019 var ég umsjónarmaður ráðgjafar hjá Samskiptasetri Erindis og sinnti þar verkefnastjórn, ráðgjöf og öðrum verkefnum. Erindi þjónustaði börn að 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra varðandi samskiptavanda og var ráðgjöfin að kostnaðarlausu í boði landssöfnunar Á allra vörum – Einelti er ógeð. Einnig var veitt ráðgjöf til skóla, íþróttafélaga og samtaka sem vinna með börnum, ásamt því að yfirfara eineltisáætlanir, stýra hópvinnu með börnum o.fl.
Sjálfboðaliði í áfallateymi Rauða Kross Íslands
Ég hef verið sjálfboðaliði í áfallateymi RKÍ (nú Viðbragðshópur) frá því árið 2014. Á þeirra vegum hef ég veitt einstaklingum og hópum áfallahjálp í kjölfar ýmissa alvarlegra atburða. Það að starfa sem sjálfboðaliði og styðja við jafn mikilvæga þjónustu og áfallateymið veitir hefur gefið mér ómetanlega og dýrmæta reynslu sem ég mun ávallt búa að.
Uppeldis og meðferðarfulltrúi
Árin 2010 til 2017 starfaði ég á skammtímaheimili fyrir unglinga á vegum Barnaverndar Reykjavíkur, sem deildarstjóri frá 2011. Þar búa unglingar, til skamms tíma, sem ekki geta búið heima hjá sér, ýmist vegna eigin hegðunar eða aðstæðna heima fyrir. Á þessum tíma öðlaðist ég mikilvæga þekkingu og reynslu á málefnum fjölskyldna sem barnavernd hefur aðkomu að.
Uppeldisráðgjafi
Árið 2016 útskrifaðist ég sem PMTO meðferðaraðili. (Parent Management Training – Oregon.) Í PMTO er farið í ýmis verkfæri sem er gott fyrir foreldra að hafa í fórum sínum til að takast á við uppeldi barna sinna. Foreldrar þekkja börnin sín best, en oft er gott að fá utanaðkomandi aðstoð til að beina málum í jákvæðan farveg áður en lítill vandi verður stór.
Náms- og starfsráðgjafi
Ég útskrifaðist með diploma og starfsréttindi frá HÍ 2010 og starfaði í Menntaskólanum Hraðbraut í tvö ár í kjölfar útskriftar. Nú sinni ég náms- og starfsráðgjöf í Grunnskólanum Austan Vatna – Hofsósi, en þangað fer ég fjórum sinnum að vetri og hef gert frá vetrinum 2015-2016. Ég er með réttindi til að leggja fyrir áhugasviðskönnunina Bendil.
Kennari
Ég útskrifaðist með B.Ed menntun frá KHÍ 1999 og kenndi í nokkur ár í grunnskóla í Reykjavík, á yngsta stigi og miðstigi. Eftir útskrift sem fjölskyldufræðingur hef ég kennt í fjölskyldumeðferðarnáminu hjá EHÍ.
Allt hitt
Fyrir utan reynslu úr menntun og störfum sinni ég ýmsum hlutverkum sem hafa þroskað mig sem einstakling og meðferðaraðila. Dóttir, systir, eiginkona, vinkona, mamma, amma o.s.frv. Ég á samtals fimm börn, “stjúp og eigin”, einbura og þríbura ásamt fimm ömmubörnum.
Viðtöl og ávörp
Gefandi að hjálpa unglingum í neyð
Umfjöllun um skammtímaheimili fyrir unglinga
Snýst ekki um góð og vond börn
Um fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum
Nemandi vikunnar
Sagan hennar Elsu – Ávarp á degi gegn einelti
Ávarp við útskrift úr fjölskyldumeðferð

Vinnusiðferði

Virðing fyrir skjólstæðingum, þeirra aðstæðum og óskum, er í fyrirrúmi í allri meðferð og ráðgjöf og áhersla er lögð á persónulega og hlýlega þjónustu sem sniðin er að hverjum og einum.
Meðferð og ráðgjöf er veitt í samræmi við siðareglur fjölskyldufræðinga, en flestar greinar hennar er hægt að heimfæra á aðra þjónustu. Náms- og starfsráðgjöf er einnig veitt í samræmi við siðareglur náms- og starfsráðgjafa
Fyllsta trúnaðar er gætt, samkvæmt lögum og siðareglum. Undantekningar á trúnaðarákvæði eru ef velferð barns, fatlaðs eða aldraðs einstaklings er í húfi, eða ef skjólstæðingur er líklegur til að valda sjálfum sér og/eða öðrum skaða. Meðferðaraðili getur einnig, í samræmi við lög, verið skyldaður til að veita upplýsingar í samræmi við takmarkanir á þagnarskyldu sem gilda samkvæmt lögum.
Meðferð gagna er í samræmi við Lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Sem fjölskyldufræðingur fæ ég ekki að starfa undir skyldum landlæknis, en Fjölskyldufræðingafélag Íslands er að vinna að því að fá löggildingu starfsheitis samþykkta. Ég legg mig þó fram um að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til sambærilegra starfsstétta, eftir því sem við á.