Þjónusta

Öll mín hlutverk, nám og reynsla, hafa gert mig að þeim meðferðaraðila sem ég er í dag. Þannig hefur þekking mín og reynsla af jógavísindum til dæmis áhrif á hvernig fjölskyldumeðferð ég veiti, og þekking og reynsla í fjölskyldumeðferð áhrif á meðferð eineltismála, svo eitthvað sé nefnt.
Þegar óskað er eftir meðferð/ráðgjöf er hægt að tilgreina sérstaklega hvers konar þjónustu er óskað eftir, eða láta það ráðast hvert meðferðin/ráðgjöfin leiðir okkur.

Þegar þú kemur þar sem margar leiðir mætast og þú veist ekki hverja þú ættir að velja, veldu þá ekki af handahófi. Sestu niður og dokaðu við. Dragðu andann djúpt, fylltu lungun lofti eins og þegar þú komst fyrst í þennan heim. Láttu ekkert trufla þig – en bíddu og haltu áfram að bíða. Vertu kyrr og hlustaðu í þögninni á hjarta þitt. Svo, þegar það talar til þín, stattu upp og farðu þangað sem það leiðir þig.

Susanna Tamaro

Fjölskyldumeðferð

“Það er ekki hægt að viðhalda friði með valdi.
Það er aðeins hægt með skilningi.
(
Albert Einstein)
Áhrifamáttur fjölskyldunnar er mikill, en hegðun og líðan hvers einstaklings innan hennar hefur áhrif á alla aðra einstaklinga í fjölskyldunni. Stundum jákvæð áhrif og stundum neikvæð. Í fjölskyldumeðferð er tekið mið af fjölskyldunni sem heild og velferð hennar höfð að leiðarljósi. Fjölskyldumeðferð er oft kölluð fjölskylduráðgjöf í daglegu tali.

Hvenær hentar fjölskyldumeðferð?

Fjölskyldumeðferð er fagleg aðstoð við margvísleg verkefni fjölskyldunnar. Til dæmis:
 • ef þú vilt bæta tengsl eða ef um ágreining eða óhjálplegt samskipamynstur er að ræða í parsambandinu, á milli foreldra og barna/unglinga, á milli foreldra og uppkominna barna, innan stórfjölskyldunnar, á milli systkina o.fl.
 • ef þig langar að skilja sjálfan þig betur, gildi þín og viðmið, hegðun og viðbrögð
 • ef hugsun eða umræða um skilnað kemur upp
 • ef um framhjáhald er að ræða
 • í kjölfar veikinda, atviks eða áfalls sem veldur ójafnvægi í fjölskyldunni
 • ef foreldrar vilja samræma sig betur í uppeldi
 • ef fjölskyldumeðlimir hafa ekki talað saman í langan tíma og vita ekki hvar þeir eiga að byrja
 • þó ekkert stórvægilegt sé að, einfaldlega til að gera gott betra
Vandinn þarf ekki að vera stór til að leita í fjölskyldumeðferð, því fyrr sem leitað er aðstoðar, því styttri tíma tekur það yfirleitt að komast á betri stað.

Hvað er unnið með í fjölskyldumeðferðinni?

Í fjölskyldumeðferð er unnið með samskiptin og tengslin á milli fjölskyldumeðlima og skoðað hvaða áhrif þau hafa á hugsun, líðan og hegðun viðkomandi. Leitast er við að styrkja jákvæð samskiptamynstur og brjóta upp þau óhjálplegu. Í fjölskyldumeðferð er unnið með það sem viðkomandi einstaklingi/fjölskyldu þykir mikilvægast, eftir þeim aðferðum er henta hverju sinni.

Hverjir mæta, hversu lengi og hversu oft?

Ekki er gerður greinarmunur á hvernig fjölskyldan er samsett, hvort um er að ræða líffræðileg tengsl, stjúptengsl, fósturtengsl, tilfinningatengsl eða annars konar tengsl. Skjólstæðingurinn skilgreinir sjálfur sína fjölskyldu.
Misjafnt er hvaða fjölskyldumeðlimir taka þátt í meðferðinni en það fer t.d. eftir því hvað er verið að vinna með, vilja þess sem óskar eftir fjölskyldumeðferð o.fl. Það er líka hægt að koma einn í fjölskyldumeðferð.
Lengd meðferðar fer eftir aðstæðum og óskum skjólstæðings, sömuleiðis hversu langur tími líður á milli viðtala.
Smelltu hér ef þú vilt óska eftir fjölskyldumeðferð eða fá nánari upplýsingar.

Jógaþerapía

“Orkan fer þangað sem athyglin dvelur
Líkaminn geymir ótrúlegt magn upplýsinga; allt sem við höfum upplifað, er óuppgert eða situr fast í okkur og skapar hindrun í orkuflæðinu. Þessar hindranir koma oft út sem verkir, vanlíðan, óþægindi eða stirðleiki.
Í jógaþerapíu vinnum við í því að opna upp það svæði eða orkustöð sem þarfnast úrvinnslu eða aðstoðar hverju sinni. Við skoðum orkuna sem þar býr og leitumst við að leysa upp líkamlegar, tilfinningalegar og hugrænar hindranir.

Hvenær hentar jógaþerapía?

Hvort sem þú veist hver hindrunin er eða ekki þá getur jógaþerapía gagnast vel. Jógaþerapía gagnast líka þó þú finnir ekki fyrir neinni hindrun en langar að hreyfa við orkunni þinni.
Jógaþerapía getur t.d. hentað vel til að vinna með líkamlega verki, spennuástand, erfiðar tilfinningar eða atvik.

Hvernig fer jógaþerapía fram?

Í jógaþerapíu vinnur meðferðaraðili með líkama viðkomandi. Meðferðaraðili setur skjólstæðing í þá jógastöðu sem á við hverju sinni, heldur við og notar jafnvel eigin líkamsþunga til að þrýsta á eða lyfta líkama eða líkamspörtum skjólstæðings. Skjólstæðingur þarf aðeins að einbeita sér að því að anda inn í líkamann, gefa eftir og njóta. Í lokin er skjólstæðingur leiddur í slökun.

Hversu lengi og oft?

Lengd hvers tíma er misjafn þar sem misjafnt er hvað er unnið með og einstaklingsbundið í hversu langan tíma. Algengt er um 60 mínútur.
Um tvær leiðir er að ræða:
a) “stakir tímar”, þar sem unnið er með það sem líkaminn kallar á hverju sinni
b “allar orkustöðvar” þar sem er farið skipulega í gegnum hverja orkustöð fyrir sig, alls sex skipti.
Einnig er hægt að vinna með jógaþerapíu sem part af annars konar meðferðartíma, ef aðstæður skapast til þess og skjólstæðingur hefur áhuga á.
Smelltu hér ef þú vilt óska eftir jógaþerapíu eða fá nánari upplýsingar.

Jógatímar

“Om namo bhagavate vasudevaya
Jógaástundun er áhrifarík leið til heilbrigðis og andlegs þroska. Jógaástundun hjálpar okkur að ná jafnvægi á líkama, tilfinningar og huga, ásamt því að auðvelda okkur að takast á við streitu og utanaðkomandi áreiti.
Lífið færir manni alls kyns verkefni til að takast á við og hvert verkefni þroskar mann. Að takast á við lífið með jógaástundun í farteskinu er svo sannarlega betra.

Hvernig jógatímar?

Mjúkir jógatímar þar sem áhersla er lögð á að leita inn á við og tengjast hjartanu, losa spennu og anda. Leitast er við að ná valdi á huga og tilfinningum og í leiðinni styrkist líkaminn og verður liðugari.
Jógatímarnir byggja á grunni jógavísindanna og því sem ég hef lært á jógaleiðinni minni

Hvað þarf til að geta mætt í jógatíma?

Það eru engar kröfur um ástand eða fyrri ástundun. Tímarnir eru byggðir þannig upp að hver og einn geti ástundað á eigin forsendum.
Dýnur, teppi og púðar eru á staðnum en þú mátt að sjálfsögðu koma með þitt eigið.

Hvar og hvenær?

Í augnablikinu eru engir reglulegir jógatímar en stefnt er að tímum fljótlega.
Tek einnig að mér afleysingu eftir samkomulagi.
Smelltu hér ef þú vilt óska eftir nánari upplýsingum um jógatíma.

Samskiptavandi/einelti

“Gerðu aldrei eitthvað sem er rangt til að eignast vin…eða halda vináttu
(Robert E. Lee)
Þegar samskiptavandi kemur upp á milli barna er ekki alltaf auðvelt að ákveða hvort eða hversu mikið þarf að grípa inn í. Samskiptavandinn birtist á margvíslegan máta og í mörgum tilfellum geta einstaklingarnir sjálfir leyst úr málunum og fá þannig tækifæri til að þroska samskiptafærni sína. En stundum verður samskiptavandinn þannig að fullorðnir þurfa að grípa inn í.
Það er mikilvægt að setja ekki alla orkuna í að skilgreina alvarleika vandans og hvort um einelti sé að ræða eða ekki. Mikilvægast er að finna farsælar leiðir til að takast á við vandann, skoða málið heildrænt og sjá til þess að allir aðilar fái að axla ábyrgð á hegðun sinni og breyta til hins betra.

Hvaða þjónusta er í boði?

Sem fyrrum ráðgjafi hjá Samskiptasetri Erindis og fulltrúi í fagráði eineltismála í grunn- og framhaldsskólum hef ég víðtæka reynslu af samskiptavanda og eineltismálum barna og get tekið að mér ýmiss konar verkefni, svo sem:
 • Stuðningur/ráðgjöf við foreldra og börn, t.d. ef vandi er til staðar en þú ert ekki viss hvernig þú vilt takast á við hann.
 • Stuðningur/ráðgjöf ef þú veist ekki hvort þurfi að grípa inn í þau samskipti sem valda þér áhyggjum.
 • Vera hlutlaus aðili á fundi foreldra og skóla, t.d. ef um samskiptavanda á milli heimilis og skóla er að ræða.
 • Yfirlestur eineltisáætlana.
 • Sérhæfð verkefni varðandi skólabrag og/eða eineltismál.
 • Fræðsla til starfsfólks, foreldra og nemenda
Öll verkefni eru sérsniðin að hverju máli fyrir sig og hagur barnsins/barnanna er ávallt í fyrirrúmi, hvort sem foreldrar óska eftir þjónustunni eða skólayfirvöld.
Smelltu hér ef þú vilt óska eftir stuðningi/ráðgjöf eða fá nánari upplýsingar.

Náms- og starfsráðgjöf

“Besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina er að skapa hana
(Abraham Lincoln)
Náms- og starfsráðgjöf beinist að því að aðstoða fólk á öllum aldri við að taka ákvörðun um nám og störf, ásamt því að efla nemendur svo þeir geti notið sín í námi.
Náms- og starfsráðgjöf getur t.d. hentað þér ef þú vilt átta þig á áhugasviði þínu og tengja við nám og störf, t.d. með áhugasviðskönnun, undirbúa atvinnuleit, gera ferilskrá og atvinnuumsókn, bæta vinnubrögð og námstækni, t.d. skipulag, tímastjórnun, lestrar/glósutækni o.fl.

Hvaða þjónusta er í boði?

Náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum
Nemendur grunnskóla eiga skv. lögum um grunnskóla rétt á að þjónustu náms- og starfsráðgjafa. Því miður er þónokkuð um skólar, sérstaklega á landsbyggðinni sem búa ekki svo vel að því að hafa reglulegan aðgang að náms- og starfsráðgjafa.
Ég get tekið að mér að koma út á land í stuttar lotur, nokkru sinnum yfir veturinn, allt eftir samkomulagi.
Bendill – áhugasviðskönnun
Það er mikilvægt að þekkja áhugasvið sitt, færni og gildismat til að geta valið nám og starf við hæfi, ef samræmi næst er líklegra að þú verðir ánægð/ur og sýni árangur í námi og starfi.
Áhugasviðskönnun er eitt af því sem hægt er að nota til að koma skipulagi á áhugasvið og auka þannig sjálfsþekkingu sína. Niðurstöður eru leiðbeinandi, en ekki stýrandi, og koma einstaklingnum af stað við frekari könnun á námsleiðum og mögulegum starfsvettvangi.
Bendill I er ætlaður nemendum á lokaári grunnskólans og sýnir á hverju af sex áhugasviðum Hollands (handverks-, vísinda-, lista-, félags-, athafna- og skipulagssviði) áhuginn liggur helst. Niðurstöðurnar koma myndrænt fram, litakóðaðar eftir því hvort áhugi á viðkomandi sviðum er undir meðallagi, í meðallagi eða yfir meðallagi miðað við jafnaldra.
Bendill II er ætlaður fyrir framhaldsskólanema og Bendill III fyrir háskólanema. Þar er byggt á sömu flokkum og í Bendli I, ásamt undirflokkum. Bendill IV er ætlaður fullorðnu fólki á vinnumarkaði og byggja sömuleiðis á flokkum Holland og undirflokkum.
Smelltu hér ef þú vilt óska eftir náms- og starfsráðgjöf eða fá nánari upplýsingar.