Rektor, endurmenntunarstjóri, starfsfólk, útskriftarnemar, góðir gestir.

Til hamingju með daginn.

Mig langar að biðja ykkur um að staldra aðeins við. Jafnvel loka augunum, draga andann djúpt að… og rólega frá. Líttu í kringum þig. Líttu á fólkið þitt. Hvort sem þú ert útskriftarnemi, starfsmaður eða aðstandandi, taktu eftir þessari stundu.

Á þessari stundu erum við útskriftarnemar að uppskera. Fólk á öllum aldri sem átti sér draum í hjarta sínu og fylgdi honum. Hvort sem draumurinn var að vinna með styrkleika einstaklinga, leiða fólk um náttúru landsins, sinna þeim sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið eða veita fjölskyldum í vanda meðferð þá er sá draumur nú að verða að veruleika.

Það þarf kjark til að fylgja hjarta sínu og draumum. Það þarf kjark til að takast á við ný verkefni, setjast aftur á skólabekk, stundum eftir margra ára hlé og kynnast fullt af nýju fólki. Læra ógrynni af kenningum, staðarháttum, reglugerðum og öllu sem fylgir á sama tíma og við sinnum vinnunni okkar, fjölskyldunni og öllum þeim hlutverkum sem við gegnum í lífinu. Hér er því að útskrifast hópur af kjarkmiklum einstaklingum sem lét þetta ekki stoppa sig og jafnvel einhverjir sem tóku u-beygju á ferðalagi sínu í gegnum lífið – en það þarf nú extra skammt af hugrekki til þess.

Ferðalagið er búið að vera gríðarlega skemmtilegt, en þó ekki alltaf áreynslulaust. Að minnsta kosti ekki hjá okkur í fjölskyldumeðferðinni. Við höfum hlegið saman og við höfum grátið saman. Oft hefur hláturinn framkallað tár, en stundum hafa tilfinningarnar tekið völdin. Ég held ég tali fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að ef við hefðum vitað hvers konar naflaskoðun væri framundan, þá hefðum við sennilega hugsað okkur einu sinni enn um áður en við létum vaða og skelltum inn umsókn. En ég veit líka að við erum allar mjög þakklátar fyrir þann þroska sem við höfum gengið í gegnum í náminu síðustu tvö ár. Þakklátar fyrir einvala lið kennara og handleiðara sem spurðu spurninga og lögðu fyrir okkur verkefni sem komu okkur sífellt lengra. Og ég efast ekki um að það sama eigi einnig við á hinum brautunum. Fyrir vikið verðum við enn betri fagaðilar en annars og fyrir það ber að þakka.

En kæru gestir. Þetta er dagur okkar allra. Við höfum öll tilefni til að fagna. Þó að við sem erum að útskrifast séum búin að sitja „sveitt“ við námið undanfarin tvö til fjögur misseri þá er sigurinn ekki síður ykkar hinna. Allir þeir makar sem hafa staðið vaktina á heimilinu, börnin okkar sem hafa gefið eftir dýrmætan tíma, foreldrar sem hafa hvatt okkur áfram, vinnuveitendur sem gáfu okkur leyfi til að mæta í skólann. Vinirnir sem vissu kannski ekki nákvæmlega hvað það var sem við

vorum að gera en spurðu samt. Kennarar og starfsfólk Endurmenntunar sem komu okkur í gegnum þetta. Vegna ykkar allra stöndum við hér í dag og uppskerum. Án ykkar hefði draumurinn sennilega ekki orðið að veruleika.

Svo kæru samnemendur. Í dag munu margir óska okkur til hamingju og dást að dugnaðinum. Og við eigum það skilið, enda lagt á okkur ómælt erfiði. En óskum fólkinu okkar líka til hamingju. Og munum að þakka þeim fyrir þeirra framlag. Saman höfum við náð markmiðinu, hvort sem þetta er lokamarkmið eða aðeins varða á leiðinni okkar.

Kæru gestir, starfsfólk og samnemendur. Njótum dagsins. Njótum lífsins. Verum kjarkmikil, fylgjum draumum okkar og látum hjartað ráða för. Mig langar að enda þetta á orðum Susanna Tamaro úr bókinni Fylgdu hjarta þínu en þar segir: „Þegar þú kemur þar sem margar leiðir mætast og þú veist ekki hverja þú ættir að velja, veldu þá ekki af handahófi. Sestu niður og dokaðu við. Dragðu andann djúpt, fylltu lungun lofti eins og þegar þú komst fyrst í þennan heim. Láttu ekkert trufla þig – en bíddu og haltu áfram að bíða. Vertu kyrr og hlustaðu í þögninni á hjarta þitt. Svo, þegar það talar til þín, stattu upp og farðu þangað sem það leiðir þig.“