Háttvirtur mennta- og menningarmálaráðherra og aðrir góðir gestir.
Mig langar að segja ykkur söguna hennar Elsu.
Þegar Elsa var 8 ára byrjaði hún í nýjum skóla. Elsa var jákvæð lífsglöð stúlka sem átti auðvelt með að eignast vini og hún var full tilhlökkunar að kynnast samnemendum sínum. Elsa fékk strax mikla athygli, margir vildu ólmir kynnast henni og leika við hana.
Í bekknum hennar Elsu voru nemendur sem höfðu verið „vinsælastir“. Þeir sem allir vildu leika við. Þessir nemendur voru ekki mjög hrifnir af Elsu, því þegar hún fékk athygli féllu þau í skuggann. Þau fóru því að gera lítið úr Elsu svo lítið bæri á, og sporna við því að hún kæmist inn í hópinn.
Foreldrar Elsu voru í góðu sambandi við skólann og eftir einhvern tíma ákváðu þau að leggja inn tilkynningu um einelti, þar sem einhverjir nemendur voru farnir að ganga í skrokk á henni. Foreldrar meintra gerenda voru upplýstir og látið vita að vel yrði fylgst með á næstunni. Það varð til þess að þeir héldu sig til hlés hvað ofbeldi varðaði, en lúmsk hunsun og augngotur notaðar til að setja Elsu á sinn stað.
Niðurstaða skólans úr athugun var sú að ekkert einelti ætti sér stað, enda sögðu þeir Elsu ekki sýna nein merki vanlíðunar í skólanum, þvert á móti væri hún stundum soldið afskiptasöm og stjórnsöm. Foreldrarnir mótmæltu og sögðu Elsu setja upp grímu í skólanum en fella hana þegar heim væri komið. Einhverju seinna sendu foreldrar aftur inn tilkynningu og eftir langa könnun máls kvað skólinn upp um að það mætti jú túlka vandann sem einelti samkvæmt skilgreiningu á einelti í eineltisáætlun skólans.
Á þessum tíma var hegðun Elsu orðin erfið, hún var ekki jafn glöð og áður og foreldrarnir óskuðu eftir að skólinn upplýsti foreldrasamfélagið í þeirri von að fá foreldra í bekknum í lið með sér. Skólinn vildi síður gera það, meðal annars þar sem nokkrir foreldrar voru farnir að kvarta undan hegðun Elsu gagnvart sínum börnum. Þar að auki var eitt foreldri í hópnum sem lagði hart að skólanum að endurskoða úrskurðinn um einelti, þar sem barnið hennar ætlaði sér langt í lífinu og þá væri ekki gott að vera með stimpilinn „gerandi“ á sér.
Samband foreldra Elsu og skólans var ekki jafn gott og áður. Foreldrarnir upplifðu sig ekki lengur fá skilning eða stuðnings skólans og starfsfólk skólans var orðið langþreytt á kvörtunum foreldra og fannst þau aldrei axla ábyrgð á hegðuninni sem Elsa sýndi.
Sagan af Elsu er ekki sönn eins og hún kemur fyrir hér í dag. En sagan af Elsu er sett saman úr sönnum atburðum úr lífi nokkurra barna, meðal annars sem fagráð eineltismála hefur komið að.
Það voru allir sammála um að einelti ætti ekki að líðast, það hefði alvarlegar afleiðingar og þyrfti að koma í veg fyrir. En hver var þá vandinn? Jú, vandinn var meðal annars sá að fólki bar ekki saman um alvarleika málsins og fólki bar ekki saman um hvort um einelti væri að ræða eða ekki.
Það er ekki alltaf einfalt að ákveða hvort um einelti sé að ræða þegar samskiptavandi kemur upp. Samskiptavandi birtist á margvíslegan máta, er misalvarlegur og oft og tíðum mjög falinn fyrir okkur fullorðna fólkinu sem eigum að standa vörð um börnin sem við önnumst. Börn eru snillingar í að fela fyrir okkur, meðvitað og ómeðvitað. Við þurfum því oftar en ekki að reiða okkur á frásagnir, sem oft og tíðum eru litaðar heitum tilfinningum, eldri reynslu og upplifun viðkomandi af kringumstæðunum. Frásagnir og upplifanir barnanna sjálfra og foreldranna, samnemenda, starfsfólks og annarra sem að málinu koma. Allt þetta þurfum við að taka saman og ákveða hvort um einelti sé að ræða eða ekki.
Eða hvað?
Þegar Elsa var komin í unglingadeild var staðan orðin skárri og nýtt kennarateymi sá um hennar mál. Eitt sinn sat hún á fundi með foreldrum sínum hjá umsjónarkennara. Ástæðan var sú að þrátt fyrir að staðan væri orðin betri þá þráði Elsa ekkert heitar en að fá að skipta um skóla, þar sem hún upplifði sig ekki eiga neinn vin í skólanum og að ákveðinn hópur bekkjarins væri enn að reyna að útskúfa sig. Elsa grét sáran og leið augljóslega mjög illa.
Á ákveðnum tímapunkti í samtalinu sagði kennarinn: „Ég nota þetta orð ekki oft, en mig langar að spyrja, myndirðu segja að það væri verið að leggja þig í einelti?“ Elsa hugsaði sig um og svaraði svo: „Kannski ekki núna, en það var svoleiðis“.
Ég velti oft fyrir mér hver tilgangur spurningarinnar var. Mögulega til að meta alvarleika málsins? Mögulega til að meta hver næstu skref væru? Mögulega var nauðsynlegt fyrir kennarann að spyrja þessarar spurningar til að átta sig betur á hvað væri raunverulega að gerast.
Skilgreiningar geta verið af hinu góða og skilgreiningar eru oft nauðsynlegar. En skilgreiningar geta líka þvælst fyrir okkur. Þegar upp kemur vandi í samskiptum er mikilvægt að orka og athygli fari ekki að mestu í að skilgreina eða deila um hvort um einelti sé að ræða eða ekki.
Fagráð eineltismála hefur ítrekað þurft að taka þetta fram í þeim ráðgefandi álitum sem gefin hafa verið út. Af hverju? Af því að allt of oft hefur orka og athygli heimila og skóla snúist nákvæmlega um það. Að deila um hvort um einelti var að ræða eða ekki. Dýrmæt orka sem hefði átt að sameina til að takast á við vandann.
Kæru gestir. Fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum getur verið mikilvægur hlekkur í stuðningi við skólasamfélagið. Oft þarf hlutlausan aðila til að horfa á málið utan frá og koma með nýjar tillögur að lausnum þegar aðrar eru ekki að virka. Það er mín einlæga ósk að þegar máli er vísað í fagráðið, fái kraftar þess að sameinist kröftum skóla og heimila í þeim tilgangi að finna farsæla lausn á vandanum. Þannig nýtum við fagráðið best, í stað þess að það sé sáttasemjari eða úrskurðaraðili heimilis og skóla um hvort einelti hafi verið að ræða eða ekki, jafnvel þegar barnið hefur þegar skipt um skóla…en þannig standa málin oftast í dag þegar fagráð tekur við.
Þegar við erum með jafn dýrmætan efnivið í höndunum og börn eru, er mikilvægt að mæta þeim þar sem þau eru stödd hverju sinni. Líði nemanda illa ber okkur skylda til að hlusta á hann og foreldrana. Sama hversu oft þau hafa hringt, sent tölvupóst eða mætt á staðinn.
Mögulega er verið að gera úlfalda úr mýflugu. Mögulega er um að ræða barn eða foreldra sem taka öllu of alvarlega og þá þurfum við að takast á við það. Mögulega er um einelti að ræða þó við sjáum það ekki.
Barni sem líður illa á það skilið að þeir aðilar skólasamfélagsins sem við á hverju sinni taki höndum saman og leggi sig 100% fram um að finna farsælar leiðir til að takast á við vandann, hver sem vandinn er.
Barn sem stuðlar að vanlíðan annarra á það líka skilið.
Börn eiga það skilið að orka okkar og athygli fari í að bregðast við og vinna saman, hvort sem um einelti er að ræða eða ekki.
Því þegar allt kemur til alls þá er vandinn sem um ræðir sá sami…hvaða nafni sem við köllum hann
Leave A Comment